Mæli með: Hlaðvörp

TAKK fyrir geggjuð viðbrögð við blogginu, þau fóru langt fram úr mínum vonum og ég hlakka mikið til að deila fleiri færslum með ykkur❤️

Í þessari færslu langar mig til að mæla með hlaðvörpum eða podcöstum sem ég hlusta á. Flest höfum við aðeins meiri tíma en áður þessa dagana og því tilvalið að athuga með ný (eða gömul) hlaðvörp til þess að hlusta á. Ef þú ert aðdáandi hlaðvarpa sem fjalla um morð, leyst eða óleyst sakamál og þess háttar þá verð ég því miður að hryggja þig með því að það er ekkert svoleiðis hér á listanum. Það er ekki það að ég hafi ekki áhuga á að hlusta á svoleiðis hlaðvörp heldur hef ég ekki þorað að hlusta á þau. Ég er með svo agalega lítið hjarta þegar kemur að einhverju svona. Ég get t.d. alls ekki horft á hryllingsmyndir nema ég sé hreinlega neydd til þess og held alltaf fyrir augun (og eyrun) ef það kemur sena í myndum eða þáttum sem mér finnst óþægileg. Kannski kemur að því að ég þori að hlusta einn daginn😅

Þau hlaðvörp sem ég hlusta á eiga það flest sameiginlegt að veita mér innblástur að einhverju leyti svo ef það er eitthvað sem heillar þig þá gæti þessi listi mögulega komið að góðum notum.

The Snorri Björns Podcast Show
Þetta er fyrsta hlaðvarpið sem ég byrjaði að hlusta á og geri enn. Snorri fær til sín haug af ótrúlega flottu og áhugaverðu fólki og ég held ég hafi hlustað á hvern einasta þátt. Mér finnst ég yfirleitt geta tekið eitthvað til mín frá hverjum einasta viðmælanda. Fyrir utan þá viðmælendur sem hann fær til sín þá er hann sjálfur líka ótrúlega skemmtilegur og kann sitt fag greinilega vel. Hljóð, klipping, efni og meira segja auglýsingagerðin er alltaf on point!

Fashion No Filter
Eitt af fáum hlaðvörpum á ensku sem ég get hlustað á. Finnst stundum óþægilegt að hlusta á ensk hlaðvörp ef spyrillinn er mjög ýktur en þessar tvær elska ég. Þetta eru tvær tískudrottningar sem hafa starfað lengi innan tískuheimsins. Þær taka fyndin og skemmtileg viðtöl við alls konar fólk sem tengjast þeim bransa á einn eða annan hátt. Kannski ekki hlaðvarp sem hentar öllum en mér finnst það voða skemmtilegt.

Helgaspjallið
Helga hef ég fylgst með í mörg ár bæði á Trendnet og á Instagram. Hann er einlægur, skemmtilegur og fyndinn karakter sem skín svo innilega í gegn í hlaðvarpinu. Hann segist sjálfur vera á vegferð að því að verða besta útgáfan af sjálfum sér og er það meiningin með hlaðvarpinu. Hann fær mismunandi viðmælendur til sín þar sem hann lærir af hverjum og einum (og ég í leiðinni). Það eru þó nokkrir þættir af Helgaspjallinu sem ég hef hlustað á oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég mæli sérstaklega með þeim þáttum þar sem hann tekur viðtal við Söru Maríu Forynju, Apríl Hörpu og Evu Dögg Rúnarsdóttur ef þið hafið áhuga andlegum málefnum, yoga og hugleiðslu.

Þarf alltaf að vera grín?
Er nokkuð viss um að meirihluti þjóðarinnar kannist við þetta hlaðvarp en ég gat ekki sleppt því að nefna það. Uppáhalds hlaðvarp í langan tíma og ég bíð spennt eftir nýjum þætti í hverri viku. Tryggvi, Tinna og Gói eru svo furðulega gott tríó og það hefur ekki enn komið sá þáttur þar sem ég hlæ ekki! Svo voru þau núna nýlega að opna heimasíðu með enn meira efni sem eflaust margir fagna.

Þegar ég verð stór
Það ættu allar stelpur og konur að hlusta á þetta hlaðvarp. Þær Vaka og Vala fá til sín flóru af mögnuðum konum sem allar eiga það sameiginlegt að skara fram úr á sínu sviði. Hver kona á sér mismunandi sögu um hvernig hún komst á þann stað sem hún er í dag og það er svo ótrúlega hvetjandi að hlusta á þær. Ég mæli þó að sjálfsögðu með að allir hlusti, sama af hvaða kyni þú ert 🥰

Hlaðvörp eru svo mikil snilld og henta við nánast hvaða tilefni sem er. Hvort sem þú ert að keyra, á æfingu, úti að labba, í sólbaði eða einfaldlega að vaska upp þá geta hlaðvörp gert leiðinlegustu verkefni að hinni fínustu stund. Þið megið endilega segja mér frá fleiri hlaðvörpum ef þið lumið á einhverju skemmtilegu!

LOVE
Sesselía Dan

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s