Fyrsta árið í háskóla

Í mars 2018 var ég stödd á Balí og vissi ekkert hvað mig langaði til að gera í lífinu eftir að ég kæmi heim frá Asíu. Ég vissi að mig langaði til að læra eitthvað en vissi ekki nákvæmlega hvað, var búin að velta upp ýmsum möguleikum en komst aldrei að neinni niðurstöðu. Ég skoðaði alls konar nám en fannst ekkert eiga vel við mig. Hef reyndar ekki fundið það nám ennþá en endaði samt á því að skrá mig í hagfræði við Háskóla Íslands. Ég veit ekkert af hverju ég valdi hagfræði, ég hafði aldrei lært hagfræði né eitthvað því tengt og vissi í raun sáralítið hvað hagfræði er. Það var eitthvað við lýsinguna á heimasíðu Háskóla Íslands sem mér fannst spennandi og svo mundi ég eftir að frændi minn væri í þessu námi og hafði talað vel um það. Það var því ekki mikið á bakvið þessa ákvörðun mína um að fara í hagfræði. Ég var þó ekki stressuð eða hrædd við að læra eitthvað það sem ég hafði ekki lært áður þar sem ég hef alltaf verið mjög góður námsmaður og aldrei átt erfitt með nám.

Um haustið byrja ég svo í háskólanum, flyt í Laugardalinn með Gunna og allt var bara frekar spennandi og skemmtilegt. Námið var hins vegar allt öðruvísi en ég hafði ímyndað mér. Fagið sjálft fannst mér mjög áhugavert og finnst enn í dag en umgjörð námsins, skipulagið og almenn námstækni innan hagfræðideildarinnar var (og er) ekki upp á marga fiska. Ég gæti skrifað margar færslur um hvað mér finnst að mætti bæta í hagfræðideild Hí og Háskóla Íslands almennt en ætla þó að sleppa því – það er lítið skemmtilegt umræðuefni. Mig langar heldur að skrifa um fyrsta árið mitt í háskóla. Fyrsta önnin byrjaði vel, námsefnið var áhugavert og ég var voða spennt fyrir þessu öllu saman. Ég var þó að læra fag sem ég hafði ekki einu sinni snert á áður svo allt var mjög nýtt og ég var að læra alls konar hugtök og skilgreiningar sem ég vissi hreinlega ekki að væru til. Hagfræði er krefjandi og getur verið flókin en það er líka hluti af því sem gerir hana skemmtilega. Það kom þó fljótt að því að það var ekkert svo skemmtilegt lengur. Við tókum alls konar miðannarpróf fyrstu önnina og mér fannst mér ekki ganga nógu vel í þeim. Einkunnirnar mínar í þeim prófum voru mikið lægri en þær sem ég hafði fengið áður sem tók verulega á sálartetrið. Það hljómar kannski ekki svo slæmt að fá lægri einkunnir en í framhaldsskóla sem það er vissulega ekki en nám hefur alltaf legið vel fyrir mér og því var þetta frekar mikið sjokk. Ég lagði mig mikið fram fyrir öll próf, mætti vel og var almennt að sinna náminu vel eins og ég hafði gert áður en fannst ég samt ekki vera að uppskera eftir því. Þetta tók verulega á og ég upplifði mig eins og ég væri vitlaus, ætti ekki heima í þessu fagi og mig langaði svo oft til þess að hætta. Nám hafði í raun verið það eina sem mér fannst ég vera góð í fram að þessu og allt í einu var það eitthvað sem ég var ekki góð í og tilfinningin að líða eins og maður sé ekki góður í neinu er vægast sagt ömurleg.

Fyrsta árið í háskóla var ég ein taugahrúga, efaðist um allt sem ég gerði og fannst aldrei neitt nógu gott. Lokaprófin um jólin voru mjög erfið og ég veit að ef ég hefði fallið í einhverju þá önnina þá hefði ég hætt í náminu. Það gerðist þó ekki sem betur fer og ég hef aaaaldrei verið jafn hamingjusöm og þegar ég fékk út úr síðasta prófinu. Seinni önnin var skárri en það var samt alltaf þessi kvíði til staðar, bæði fyrir verkefnum og prófum því mér fannst svo erfitt að fá niðurstöður úr þeim og verða mögulega fyrir vonbrigðum. Þá önnina féll ég í einum áfanga (og grenjaði mikið) en náði svo í upptökuprófi. Ég held það hafi verið ágætt fyrir mig að falla til þess að ljúka því af, ég hafði aldrei fallið og var þar af leiðandi mjög hrædd við það svo það var ágætt að klára bara þann pakka. Það kom svo auðvitað í ljós að það er ekki svona slæmt að falla á prófi og það hefur ekkert að gera með hversu klár maður er.

Það tengja kannski einhhverjir ekki við það sem ég er að tala um og finnst ég jafnvel heldur dramatísk að hafa brugðist svona við þessu öllu saman og það er allt í lagi. Ég sé það líka í dag að þetta hefði ekki þurft að vera svona ótrúlega erfitt hefði ég sjálf ekki gert svona miklar kröfur til mín. Alla tíð hef ég gert miklar kröfur til mín þegar kemur að námi sem mér hefur hingað til ekki fundist neitt slæmt. Þessar kröfur skiluðu mér góðum árangri og einkunnum svo ég taldi þær vera af hinu góða. Það sem ég tengdi þó ekki við þá er að kröfurnar ættu ekki að beinast að einkunnum eða tölum heldur vinnunni sem lögð er í verkefnin/prófin og það á við í öllu, ekki bara skóla. Það er eðlilegt og gott að gera kröfur til sín þegar kemur að vinnusemi og dugnaði en það má ekki fara úr böndunum. Við getum ekki gert meira en okkar besta og ef okkar besta skilar okkur ekki þeim tölulega árangri sem við leitumst eftir þá er það bara þannig. Ef ég geri mitt besta þá á ég að vera stolt af því.

Á þessu tímabili leið mér ekki vel og ég sé það betur og betur hversu illa mér leið. En upp frá þessu fór ég líka að hugsa betur um mig sjálfa. Pabbi kynnti mig fyrir hugleiðslu sem hefur síðan þá gert magnaða hluti fyrir mig. Ég er mun tengdari sjálfri mér og mínum tilfinningum, veit betur hvað ég þarf og hvað ég þarf ekki til að líða vel. Þegar uppi er staðið þá hafði þessi reynsla góð áhrif á mig til lengri tíma og ég er mjög þakklát fyrir það. Ég er í dag að ljúka mínu öðru ári í hagfræði, finnst ótrúlega skemmtilegt (oftast) og gengur vel. Ég hef breytt þeim kröfum sem ég geri til mín, treysti betur á mig og mitt innsæi sem ég held að sé lykilþátturinn í því hvernig ég stend í dag. Ég er mjög ánægð að hafa ekki hætt á einhverjum tímapunkti einungis vegna efasemda í sjálfri mér. Ég held að það sé nefnilega mjög algengt, því miður. Við setjum of miklar kröfur á okkur sjálf og þegar það gerist svo að við stöndumst ekki þær kröfur þá brotnum við niður. Pælið í því hvað það er óheilbrigt? Við brjótum okkur sjálf vísvitandi niður í stað þess að hvetja okkur áfram og peppa.

Ég skrifaði þessa færslu án þess að vita nákvæmlega hvað ég vildi segja eða hver tilgangur hennar væri en það gerði mér ótrúlega gott að koma öllu niður á blað. Núna eru margir að klára sitt fyrsta ár í háskóla og aðrir jafnvel að skrá sig í nám fyrir næsta haust. Ég held það séu fleiri en ég sem kannast við eitthvað af því sem ég skrifaði um hér að ofan og ég veit að ég hefði viljað vita af því ef einhver hefði upplifað svipað og ég, það er gott að vita að maður sé ekki einn.

Þessi færsla var mun lengri en ég ætlaði mér svo ef þú ert enn að lesa þá vil ég þakka þér innilega fyrir það, mér þykir mjög vænt um það ❤️

LOVE
Sesselía Dan

  1. Ánægður með „þrjóskuna“ og eljuna hjá þér frænka. Góð og heiðarleg skrif. Máltækið, „það er engin rós á þyrna“ á alltaf við. Við lærum svo lengi sem við lifum. Ég er viss um að Mundi afi þinn hefði verið stoltur af því sem þú ert að gera.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s