Kjötlaus í ár

Ég áttaði mig á því fyrir stuttu að það væri komið ár síðan ég borðaði síðast kjöt. Ég er mjög stolt af þeim áfanga. Áður en ég hætti þá hafði ég reynt að verða vegan nokkru áður en það gekk aldrei í lengri tíma. Ástæðurnar fyrir því eru nokkrar.

Í fyrsta lagi þá reyndi ég að hætta öllu í einu. Hætti að borða kjöt, mjólkurvörur, egg o.fl. allt á einu bretti án þess að hafa svo mikið sem smakkað plöntumjólk. Það virkar vissulega fyrir suma að hætta öllu á einhverjum tímapunkti sem ég dáist virkilega að en það hentaði mér ekki. Ég vissi ekkert hvað ég gæti borðað fyrir utan kartöflur og hafra og varð fljótt mjög svöng, pirruð og ómöguleg. Mínir nánustu geta staðfest að það er hvorki gott fyrir sjálfa mig né þau þegar ég er pirruð og svöng.

Í öðru lagi þá hafði ég ekki tengt almennilega að ég væri að borða dýr. Ég er nú samt ekki svo vitlaus að vita ekki að lambakjöt sé dýrið lamb og að kjúklingar séu litlir ungar en það var ekki inni í myndinni að ég væri að borða dýr sem eiga mömmu alveg eins og ég, eru með tilfinningar eins og ég og eru drepin einungis til þess að ég geti borðað þau. Þau eru fædd í þennan heim einungis til þess að vera drepin stuttu seinna. Um leið og ég tengdi þetta saman þá var ekki aftur snúið.

Fyrir rúmu ári síðan tók ég fyrst út svínakjöt. Mér hefur aldrei fundist svínakjöt gott svo breytingin var ekki mikil, í raun hætti ég bara að borða skinku sem mér fannst hvort sem er ekkert sérstaklega góð. Ég tók svo fljótlega út lambakjöt og nautakjöt og í raun allt annað kjöt nema kjúkling, hann tók ég út síðast. Tíminn sem leið á milli þess sem ég hætti að borða svínakjöt og kjúkling var samt ekki langur, kannski mánuður í heildina. Tilhugsunin um að borða kjöt varð sífellt verri svo ákvörðunin um að hætta alveg að borða kjöt var með þeim auðveldari sem ég hef gert. Í dag finnst mér hún líka ein sú besta!

Ég stefni á að verða vegan einn daginn og vonandi næ ég því sem fyrst. Ég hef áttað mig á því að það virkar best fyrir mig að taka þetta í skrefum og ég reyni að vinna markvisst að því. Það sem virkar fyrir mig er t.d. að vegan-væða eina og eina máltíð. Morgunmat er t.d. sérstaklega auðvelt að gera vegan ef hann er það ekki nú þegar og eins að skipta út kúamjólk fyrir plöntumjólk út á morgunkornið. Þá reyni ég að prufa mig áfram, kaupa hinar og þessar vörur sem eru vegan og mér finnst spennandi og yfirleitt eru þær keyptar aftur í stað annarra vara sem eru ekki vegan.

Eins og er finnst mér erfiðast að taka út ost en það hlýtur að koma einn daginn. Eins fæ ég mér einstaka sinnum fisk en það hefur minnkað mikið. Veit ekki alveg af hverju en ég tengi síður fiska við tilfinningalíf þó ég hafi bara ekki hugmynd hvernig það er og sennilega þarf ég að fræða mig betur um það. Það er líka heilmikil hræsni af minni hálfu að borða ekki sum dýr en borða önnur dýr eða það finnst mér að minnsta kosti. Það er líka aðeins erfiðara að borða frábrugðið öllum öðrum á heimilinu en við erum 6 fullorðin hér heima og að vera ein sem borðar öðruvísi getur stundum verið vesen. Þau mega nú eiga það samt fjölskyldan mín að þau eru öll orðin mun opnari fyrir því að minnka kjötneyslu og borða meira plöntufæði sem mér þykir mjög vænt um.

Smá sögustund og hugleiðingar um kjötneyslu af minni hálfu. Mér finnst þetta málefni oft vera viðkvæmt bæði hjá þeim sem kjósa að borða ekki dýr og þeim sem gera það. Ég hef því dregið það svolítið á langinn að skrifa færslu um þetta. Fyrir mitt leyti þá finnst mér frábært að sífellt fleiri kjósi að minnka neyslu á dýraafurðum í hvaða formi sem er. Vegan, vegetarian, pescatarian eða meatless monday, allt eru þetta góð skref í rétta átt.

Ég tek öllum ráðleggingum, hugmyndum og umræðu um plöntufæði mjög fagnandi svo ef þið hafið eitthvað til málanna að leggja er velkomið að hafa samband við mig í gegnum Instagram ❤

LOVE
Sesselía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s