Sumarfrí á Íslandi pt. 1

Mánudaginn 20. júlí héldum við Gunnsi af stað í ferðalag um Ísland. Við (ég) vorum búin að plana ferðalagið svona nokkurn veginn, hvert við vildum fara og svoleiðis en héldum þó nokkrum dögum alveg óplönuðum. Ég var búin að panta nokkrar nætur á hóteli og svo var tjaldið einnig meðferðis.

Áður en við lögðum af stað vorum við búin að ákveða að taka okkur góðan tíma í að koma okkur frá einum stað til annars, vera dugleg að stoppa og skoða í kringum okkur og ekki vera í neinu stressi. Ég held okkur hafi tekist það bara nokkuð vel og ég mæli hiklaust með að vera dugleg að stoppa í löngum keyrslum. Það gerir svo mikið að komast aðeins út úr bílnum, teygja úr sér og anda að sér fersku lofti. Tala nú ekki um ef sólin er á lofti, þá er það extra næs.

Fyrsta daginn áttum við pantaða eina nótt á hóteli á Kirkjubæjarklaustri. Á leiðinni stoppuðum við á tveimur stöðum, við Nauthúsagil og Skógafoss. Nauthúsagil er ótrúlega fallegur staður stutt frá Seljalandsfossi. Fyrir þremur árum skoðuðum við Gunni Nauthúsagil í fyrsta sinn og á fyrsta ferðalaginu okkar saman og mér þykir því voða vænt um þennan stað ❤

Skógafoss geri ég ráð fyrir að flestir kannist við en mér finnst hann með fallegri fossum landsins. Við komum svo á Klaustur um kvöldmatarleytið og tókum því rólega, borðuðum kvöldmat og fengum okkur nokkra drykki með.

Daginn eftir var leiðinni haldið á Höfn en þar áttum við pantaða eina nótt á gistiheimili. Við byrjuðum daginn á að missa af morgunmatnum á hótelinu og þurftum því að bíða í rúman klukkutíma eftir að veitingastaðir á Kirkjubæjarklaustri myndu opna. Það hentaði mér svo sem ekkert illa því þá hafði ég afsökun til að draga Gunna í smá göngutúr um svæðið. Við gengum um fallegan skóg nálægt hótelinu og keyrðum svo að Fjaðrárgljúfri.

Á leiðinni á Höfn var fyrsta stopp í Skaftafelli. Skaftafell er klárlega eitt af higlightum ferðarinnar og með fallegri stöðum Íslands að mínu mati. Væri til í að tjalda þar einhvern tímann seinna. Skaftafell er stútfullt af fallegum stöðum en í þetta skiptið var planið að skoða Svartafoss. Til þess að komast að fossinum þarf að ganga um 2 km sem ég hafði reyndar enga hugmynd um en hafði mikið gaman að, Gunni minn eitthvað minna þó.

Næsta stopp var á Jökulsárlóni þar sem ég fékk eina bestu vegan pulsu sem ég hef smakkað. Fékk hana í matarvagni hjá lóninu sem mig minnir að heiti Heimahumar en þar eru seldar humarpullur, venjulegar pullur og vegan. Við komum svo um kvöldið á Höfn og tékkuðum okkur inn á gistiheimili í miðbænum. Gistiheimilið var alls ekkert síðra en hótelið á Klaustri og við áttum voða notalega nótt þar.

Dagur þrjú byrjaði svo á þessum fína morgunmat úr Nettó sem Gunni fékk að velja og má sjá hér fyrir neðan. Planið þennan daginn var að keyra í áttina að Egilsstöðum og eyða næstu tveimur nóttum í tjaldi. Á leiðinni stoppuðum við á nokkrum stöðum á milli Hafnar og Djúpavogs sem ég veit því miður ekki hvað heita. Gunni kom auga á alls konar fallega staði á leiðinni og þessi foss er einn af þeim.

Þegar við nálguðumst Egilsstaði ákváðum við að tjalda í Höfðavík í Hallormstaðaskógi. Við vorum frekar búin á því eftir stanslausa keyrslu síðustu daga svo restin af deginum fór í að tjalda, borða og spila Yatzi.

Á degi fjögur kíktum við svo í Vök baths sem var ekkert smá næs. Hönnunin, umhverfið, klefarnir og í raun allt við Vök fannst mér geggjað, uppáhalds laugin í ferðalaginu!

Ég ætla ekki að hafa þessa færslu mikið lengri en hún er nú þegar orðin allt of löng. Vona að einhver nenni að lesa hana til enda 😅

Part. 2 kemur svo á næstu dögum en þar mun ég segja frá restinni af ferðalaginu sem inniheldur meðal annars Stuðlagil, óvænt ferðalag til Húsavíkur og svo síðasta stoppið, Seyðisfjörð.

LOVE
Sessselía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s