Sumarfrí á Íslandi pt. 2

Jæjaaaaa seinni hluti ferðalagsins um Ísland!

Í lok síðustu færslu sagði ég frá því þegar við vorum stödd á Austurlandi, í Höfðavík nánar tiltekið (Sjá HÉR). Við gistum tvær nætur þar og seinni nóttina fengum við auka félagskap þegar Elli og Ragnheiður vinir okkar komu og tjölduðu hjá okkur.

Eftir Höfðavík var upphaflega planið að keyra til baka á Havarí í Berufirði og fara á tónleika. Við vorum nokkur sem ætluðum að hittast þar og eyða helginni saman eeeen svo þegar við ætluðum að kaupa miða var uppselt. Smá skellur en þá var bara að finna eitthvað annað skemmtilegt að gera yfir helgina. Þá kom upp sú hugmynd að fara á Húsavík en þar voru líka tónleikar yfir helgina.

Á degi 5 lögðum við því af stað til Húsavíkur með auka stoppi í Jökuldal. Í Jökuldal er einn vinsælasti Instagram staður landsins í dag, Stuðlagil. Það er þó alls ekkert skrítið, Stuðlagil er einn magnaður staður. Til þess að komast ofan í gilið þarf að labba um 5 km en annars er líka hægt að skoða það ofan frá. Mér fannst það samt ekki alveg sama upplifunin svo ég mæli hiklaust með göngunni, hún er alls ekki erfið og mjög hressandi! Meira að segja Gunni kvartaði ekkert svo mikið, bara aðeins á leiðinni til baka.

Við lentum svo á Húsavík um kvöldmatarleytið og enn bættist í ferðahópinn. Það var ekki beint sumarlegt veður á Húsavík þessa helgina (6 gráður og rigning) en það gerði ekkert til því við áttum svoo skemmtilega helgi saman.

Á degi 6 áttum við bókað í Geosea, sjóböðin á Húsavík. Sjóböðin voru ótrúlega næs en við sáum því miður ekki útsýnið yfir fjörðinn þar sem það var svo mikil þoka þann daginn, þurfum endilega að koma aftur í betra skyggni. Um kvöldið fórum við svo á tónleika í íþróttahúsinu á Húsavík sem við skemmtum okkur mikið á. Ég var ekki svo dugleg að taka myndir á Húsavík svo ég fæ að stela nokkrum frá Dóru vinkonu minni. Gleymdi hreinlega að taka myndir í allri gleðinni.

Á sunnudeginum var ferðinni svo haldið aftur til baka á Seyðisfjörð en þar áttum við pantaðar tvær nætur á hóteli. Á leiðinni stoppuðum við í Jarðböðunum á Mývatni. Gunnsi minn var örlítið þunnur svo það var fínasti þynnkubani fyrir hann.

Seyðisfjörður var sá staður sem ég var hvað mest spenntust fyrir að koma á. Mér finnst allir sem hafa verið á Seyðisfirði dásama staðinn svo mikið og því var ég búin að byggja upp smá væntingar. Seyðisfjörður stóðst þær allar og svo miklu meira en það. Hótelið sem við gistum á er í götunni þar sem kirkjan er og regnbogastígurinn frægi og um leið og við stigum út úr bílnum fann ég bara eitthvað einstakt vibe. Það var sól, fólk sat úti á veitingastöðum og stemmningin var svo næs. Við hótelið hittum við svo góðan frænda minn alveg óvænt sem var skemmtileg tilviljun.

Fyrsta kvöldinu á Seyðisfirði eyddum við á veitingastað hótelsins. Hótelið sem við gistum á heitir Hótel Aldan og við enduðum reyndar á að borða þar í öll mál þessa tvo daga sem við dvöldum á Seyðisfirði, alveg óvart. Það er staður sem ég get hiklaust mælt með, bæði gistingunni og veitingastaðnum. Ótrúlega góður matur, herbergin svo kósý og flott og veitingastaðurinn sjálfur, 10/10!

Við tókum meðvitaða ákvörðun um að eyða dögunum á Seyðisfirði í algjörri slökun. Við gerðum ekki mikið annað en að skoða bæinn, borða á Öldunni, horfa á Netflix og njóta. Mér leið svolítið eins og ég væri í útlöndum þessa tvo daga ❤

Eftir Seyðisfjörð lá leiðin heim í sólina. Við vorum um 9 tíma á leiðinni heim með stoppum en þegar við keyrðum heim var ótrúlega gott veður frá Höfn og alla leið heim í Þorlákshöfn svo við stoppuðum í enn einni lauginni. Þetta eru í raun heitir pottar en ekki laug sem eru staðsettir hjá Hoffelli í Hornafirði. Það kostar aðeins ofan í pottana en í staðinn færðu afnot af gámum sem búið er að innrétta sem klefa, útisturtum og hreinum salernum. Það voru ekki margir á staðnum á sama tíma og við svo við höfðum nokkra potta alveg út af fyrir okkur. Mjög góð slökun fyrir seinni part keyrslunnar heim.

Í heildina vorum við á ferðalagi í 9 daga og hefðum eflaust getað verið lengur hefði veðrið verið með okkur í liði fyrir austan. Við áttum ótrúlega góðan tíma saman og ég hlakka til næsta sumarfrís hér heima ❤

LOVE
Sesselía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s