Leiðir sem hjálpa mér að líða betur

Eins og eðlilegt er þá eru ekki allir dagar hjá mér dans á rósum. Suma daga þarf lítið sem ekkert til að koma mér úr jafnvægi en aðra daga er eins og ég svífi um á bleiku skýi. Ég kann talsvert betur við dagana á skýinu en það þarf víst að eiga þessa slæmu líka.

Síðustu ár finnst mér ég hafa lært mikið á sjálfa mig. Hvað lætur mér líða vel og hvað ekki. Hvað ég raunverulega vil í lífinu og hvað ekki. Í kjölfarið hef ég fundið nokkrar leiðir sem hjálpa mér að líða betur þegar ég þarf á því að halda. Það er því orðið mun auðveldara að breyta þessum slæmu dögum í hina fínustu daga. Kannski ekki jafn góða og þá á skýinu en nálægt því!

Mig langar að deila nokkrum þeirra með ykkur því allt eru þetta leiðir sem hafa hjálpað mér ❤

Við þekkjum flest þessar klassísku leiðir eins og að eiga góða stund með fólkinu okkar, dekra við okkur eða jafnvel taka góða lögn. Í þessari færslu langar mig þó að fókusa á leiðir sem ég sjálf áttaði mig lengi vel ekki á að væru til staðar (Ætla að vara ykkur við hér og nú að þær eru allar ofur einfaldar og sumar hverjar algjörar klisjur. EN klisjur sem virka!).

Skrifa
Svo einfalt en svo áhrifaríkt. Ég er mikill ofhugsari og get legið andvaka heilu næturnar því hausinn á mér einfaldlega stoppar ekki. Þegar hausinn er á algjörum yfirsnúningi þá skrifa ég niður allt sem ég er að hugsa um. Pæli ekkert í stafsetningu eða útliti textans heldur bara skrifa. Það er eitthvað við það að koma hugsunum sínum niður á blað fyrir framan sig. Það verður allt svo mikið skýrara og einfaldara. Í hvert einasta skipti sem ég sest niður og skrifa þá labba ég rólegri frá bókinni og það færist einhvers konar kyrrð yfir hugann.

Hreyfing
Þegar ég tala um hreyfingu þá er ég ekki endilega að meina hardcore 90 mínútna æfingu þar sem allt er sett í botn. Það getur verið göngutúr, hlaup,lyftingar, yoga, teygjur, sund og svo margt annað. Staðreyndin er sú að öll hreyfing eykur vellíðan og það fer eftir ástandi líkamans hvers konar hreyfingu ég vel þann daginn. Stundum er ég pirruð og þung í skapi, þá gerir 90 mínútna krefjandi æfing mér heilmikið gott. Aðra daga líður mér ekki vel, er jafnvel þreytt í líkamanum og þá verður yoga eða teygjur oftar en ekki fyrir valinu. Hreyfing úti í náttúrunni er svo það allra, allra besta.

Lestur
Þegar ég var barn og unglingur var ég mjög dugleg að lesa og var tíður gestur á bókasafninu hér heima. Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla minnkaði það svo talsvert og annað meira spennandi tók við. Síðasta árið hef ég verið að sækjast meira í lesturinn aftur og ég finn mikið hvað það er róandi og gerir mér gott. Ég sækist helst í bækur sem ég get lært eitthvað af og hafa góð áhrif á líf mitt. Ævisögur, sögur sem byggjast á sönnum atburðum og svokallaðar sjálfshjálparbækur (orð sem mér finnst þó ekki lýsa bókaflokknum nógu vel). Lestur er líka mjög góð leið til að hvíla sig á skjánum sem spilar stórt hlutverk í lífi margra.

Hugleiðsla
Fyrir um tveimur árum þegar ég var á barmi taugaáfalls í skólanum þá sendi pabbi krútt mér nokkur hugleiðsluöpp sem væru sniðug til að róa hugann. Ég endaði á að nota appið Headspace þar sem er hægt að finna nokkrar guided hugleiðslur fyrir byrjendur. Ég miklaði hugleiðslu fyrir mér og skildi næstum ekki hvað það væri í rauninni svo appið hentaði mér vel til að komast af stað. Síðan þá hef ég tamið mér að hugleiða a.m.k einu sinni á dag en hef þó engan ákveðin tímaramma. Stundum næ ég 20 mínútum en stundum bara 5 mínútum og það er bara allt í góðu. Ég næ þá að róa hugann í 5 mínútur frá amstri dagsins, fá skýrari sýn á hlutina og líður almennt betur á eftir.

Heitur pottur
Þvílík og önnur eins snilld sem heitir pottar eru. Við fjölskyldan fluttum nýverið í hús með heitum potti í garðinum og það hefur eiginlega breytt lífi mínu. Hvort sem það er gott eða vont veður þá er svo ótrúlega næs að vera úti í náttúrunni og svamla um í heitum potti. Slakandi og ákveðin jarðtenging.

Spjall
Við Gunna, mömmu og pabba, Beggu og Einar eða vini mína. Mamma og pabbi hafa alltaf lagt mikla áherslu á að ræða opinskátt um hlutina og ég er þeim mjög þakklát fyrir það. Það er svo gott að létta á sálinni og ræða hlutina sín á milli og samskipti eru svo mikill lykilþáttur í öllum samböndum. Með því að byrgja hlutina inni og díla ein við hlutina erum við að setja óþarfa álag og pressu okkur sjálf sem hefur áhrif á bæði andlegu og líkamlegu hliðina. Kvíði og stress sest alveg jafn mikið á líkamann eins og það gerir á sálina.

Þakklæti
Þegar samkomubannið góða var sett á núna í vor þá prófaði ég að hefja daginn á að skrifa niður a.m.k þrennt sem ég væri þakklát fyrir. Það má vera hvað sem er. Hlutur, manneskja, eitthvað sem gerðist, eitthvað sem þú gerðir, bara allt sem þér dettur í hug. Síðan þá hef ég gert svona lista nánast daglega, eða í um hálft ár. Ég finn mjög greinilega að það hefur góð áhrif á mig að setjast niður og hugsa um hvað það er sem ég er þakklát fyrir þann daginn. Það þvingar mig til þess að sjá allt það góða sem ég hef og samanborið við það verður flest sem angrar mig svo lítið og ómerkilegt. Mæli með að prófa!

Þessar leiðir eiga það allar sameiginlegt að veita mér ánægju, koma mér niður á jörðina og róa hugann. Hugurinn er yfirleitt það sem veldur mér mestri vanlíðan og því sækist ég í leiðir sem koma honum í jafnvægi. Hef grun um að það séu fleiri sem tengja við það og ég vona að þessar leiðir komi einhverjum að góðum notum ❤

LOVE
Sesselía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s