Tvær vikur í Víetnam

Þann 21. febrúar 2018 lentum við í borginni Ho Chi Minh í Víetnam eftir 5 tíma rútuferð frá Phnom Penh. Við komum seint um kvöldið svo leiðin lá beint inn á hostel að sofa. Daginn eftir var planið að hitta vini okkar þau Árna og Kristínu aftur og við kíktum með þeim að skoða Cu Chi Tunnels.

Cu Chi Tunnels eru neðanjarðargöng sem notuð voru í Víetnam stríðinu og er hluti þeirra opinn fyrir ferðamenn að skoða. Þeim sem vilja er velkomið að fara ofan í göngin en ég þorði það alls ekki, þau eru verulega lítil og þröng. Hentar konu með innilokunarkennd ekki svo vel. Á svæðinu er einnig skotsvæði og alls konar gildrur sem voru einnig notaðar í stríðinu. Okkur Gunna fannst dagurinn í Cu Chi Tunnels mjög áhugaverður og skemmtilegur, mælum hiklaust með ef þið hafið áhuga á svona sögulegu.

Kvöldið fór svo í djamm, eeen ekki hvað. Djamm sem endaði heldur skrautlega en sú saga á ekki heima á Internetinu.

Daginn eftir fórum við á War Remnants Museum, safn tileinkað Víetnam stríðinu. Þar tók Gunni þessa fínu mynd af mér með flugvél (sjá að neðan). Við keyptum líka kókoshnetu dýrum dómum, röltum um borgina, kíktum á markaði og í verslunarmiðstöð. Okkur var aðeins farið að leiðast stórborgarlífið svo við eyddum aðeins þremur nóttum í Ho Chi Minh, kvöddum Árna og Kristínu sem voru á leiðinni til Los Angeles og héldum næst til Hoi An.

Hoi An er með fallegri bæjum sem ég hef komið til, svo snyrtilegur og litríkur. Þar eyddum við rúmri viku og höfðum það mikið gott.

Fyrstu tvær næturnar gistum við á hosteli í miðbæ Hoi An en færðum okkur svo á voða krúttó sveitahótel aðeins frá miðbænum. Þar var dásamlegt að vera.

Á meðan á dvölinni stóð í Hoi An nutum við þess aðallega að skoða okkur um, hjóla um sveitina í kringum hótelið og borða góðan mat. Eitt kvöldið fórum við á bát sem sigldi um ána í miðbæ Hoi An, það var voða rómó.

Svo kíktum við á ströndina eftir full langa fjarveru frá einni slíkri. Á þessum tíma vorum við búin að vera í 7-8 vikur á ferðalagi og fannst algjör óþarfi að vera að gluða á okkur of mikið af sólarvörn, við værum búin að vera svo lengi á ferðalagi og örugglega orðin vön svona sterkri sól. Þetta er sennilega allra heimskulegasta ákvörðun sem við höfum tekið því að sjálfsögðu skaðbrunnum við (sjá mynd). En ströndin var næs engu að síður!

Dvölin í Hoi An endaði svo á flúrum nr. 2 í ferðinni. Er voða skotin í mínu enn þann dag í dag ❤

Næsti áfangastaður var höfuðborg Víetnam, Hanoi. Hanoi kom okkur skemmtilega á óvart. Þar var mjög skemmtilegt að rölta um og skoða mannlífið. Hver einasti maður borðaði götumat og sat á pínulitlum plast stól, meira að segja viðskiptakarlarnir í jakkafötunum. Víetnam er þekkt fyrir eftirlíkingar og í Hanoi var það mjög áberandi. Hver einasta verslun seldi voða fína „Gucci“ skó á aðeins 1000 íslenskar krónur 😅

Við gistum tvær nætur í Hanoi og svo lá leiðin til Ha Long Bay.

Ha Long Bay er á heimsminjaskrá UNESCO og er einn af fallegri stöðum jarðarinnar. Ha Long Bay er risastór flói með hundruðum eyja og það voru (á þeim tíma) ótal mörg fyrirtæki sem buðu upp á siglingar um flóann, bæði dagsferðir og lengri ferðir. Við ákváðum að bóka ferð yfir nótt með fyrirtækinu Oasis Bay, svokallaða Party Cruise og sáum aldeilis ekki eftir því. Innifalið í verðinu fyrir þá ferð var gisting í á lúxus bát í geggjuðu herbergi og matur fyrir tvo daga.

Við komum í bátinn um hádegi þann 3. mars, borðuðum hádegismat og fengum kynningu á dagskránni næsta sólarhringinn. Fyrst á dagskrá var kayak sigling um flóann og síðan tók við slökun í heitum pottum sem voru á bátnum og bjór-jóga. Um kvöldið var djamm og það var eitt af þeim aaallra skemmtilegustu sem við upplifðum í reisunni. Við mælum eindregið með að bóka hjá þessu fyrirtæki, svona ef það lifir faraldurinn af. Við kynntumst fullt af fólki, starfsfólkið var frábært og ferðin var einfaldlega sjúklega skemmtileg.

Mínar símamyndir af Ha Long Bay sýna svo engan veginn hversu magnaður þessi staður er. Þokan var einnig lítið að hjálpa. Mæli jafnvel frekar bara með því að googla staðinn 😅

Á myndinni hér að ofan er ein þunn Sesselía að reyna að ná góðri mynd á þessum fallega stað. Gekk ekki svo vel.

Eftir dvölina á Ha Long Bay gistum við eina nótt á flugvallarhóteli í Hanoi og héldum svo til Balí þar sem við fengum að verja tíma með nokkrum af vinum okkar aftur ❤

LOVE
Sesselía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s