Mánuður í bestu Filippseyjum #2

Áður en þið lesið þessa færslu þá mæli ég með að lesa þessa færslu sem fjallar um fyrri hluta dvalarinnar í Filippseyjum.

Eftir leigubílaferð, bátsferð og flugferð lentum við loksins á eyjunni Palawan þann 23. mars 2018. Ferðalagið endaði þó ekki þar. Flugvöllurinn á Palawan er staðsettur í bænum Puerto Princesa sem er stærsti bær (eða borg?) eyjarinnar en við áttum bókaða gistingu í El Nido sem er staðsett hinum megin á eyjunni. Við þurftum því einnig að taka langferðabíl þangað. Undir venjulegum kringumstæðum tekur leiðin frá Puerto Princesa til El Nido um 4-5 tíma en okkar ferð tók um þrjá tíma. Bílstjórinn keyrði eins og brjálæðingur og það var einnig tilfellið í öðrum bílferðum sem við fórum í á Palawan. Vægast sagt óþægilegt á hlykkjóttum vegum.

El Nido er með fallegri stöðum Filippseyja. Þegar við vorum þar fyrir rúmum þremur árum var El Nido að byggjast upp í kringum túrismann og enn tiltölulega vanþróaður staður líkt og sjá má á myndum hér að neðan. Rafmagnið sló út nokkrum sinnum á dag, internet var af skornum skammti og það var ekki of mikið af túristum eins og er t.d. í Tælandi. Okkur fannst geggjað að vera þarna.

Við vörðum þremur dögum í El Nido. Fyrsta daginn leigðum við vespu og keyrðum á Nacpan beach sem er talin ein fallegasta strönd Asíu. Á ströndinni voru nokkur hostel og veitingastaðir og við gátum hæglega eytt öllum deginum okkar þar að sóla okkur. Ströndin var reyndar svo fín að við fórum aftur þangað á degi þrjú.

Á leiðinni heim keyrðum við framhjá þessum dúllum sem brostu út að eyrum þegar ég tók upp símann til að taka mynd.

Á degi tvö fórum við í heilsdags hópferð með bát og sigldum um lónin í kring, fórum á kayak, stoppuðum á fallegum eyjum og nutum lífsins í botn. Þessi dagur var hreint út sagt dásamlegur. Það lá reyndar við að ferlega leiðinlegum miðaldra manni hefði tekist að eyðileggja hann fyrir mér en ég reyndi að leiða hann hjá mér. Ég vona að myndirnar gefi einhverja hugmynd um hversu sjúklega fallegt er í El Nido, þrátt fyrir iPhone gæði.

Næst lá leiðin aftur til Puerto Princesa. Puerto Princesa er ekki svo vinsæll túristastaður og þar af leiðandi voru hótel og veitingastaðir ódýrari þar en í El Nido. Við nýttum okkur það og bókuðum fínasta hótel með sundlaug sem við höfðum nánast út af fyrir okkur allan tímann. Þar dvöldum við í heila viku.

Dvölin í Puerto Princesa einkenndist af sólböðum við sundlaugarbakkann og ferðum í verslunarmiðstöðina. Það var ekki mikið um veitingastaði nálægt hótelinu okkar fyrir utan þann sem var á hótelinu og því voru ófáar ferðirnar í verslunarmiðstöðina til þess að borða á skyndibitastöðum. Gunnsa til mikillar ánægju.

Síðasta daginn okkar í Puerto Princesa fórum við í dagsferð að Puerto Princesa Subterranean River National park. Það er s.s á sem rennur í gegnum ótrúlega langan og stóran helli. Ég mæli hiklaust með að gera sér ferð þangað, þetta er frekar magnað. Ferðin var þannig uppbyggð að fyrst tókum við rútu að ánni, þaðan fórum við með báti að hellinum og rérum svo á litlum bátum langt inn í hellinn og aftur út.

Eftir það var gengið heilmikið um svæðið. Við sáum þessa risastóru eðlu og svo var í boði að fara í zipline yfir sjóinn, sem við gerðum.

Á heimleiðinni var stoppað hjá fjalli sem leit út eins og fíll og bílstjórinn vildi endilega taka mynd af okkur Gunna við hellinn og stillti okkur aldeilis upp. „You point up there and then you both look up“. Verulega fín mynd hjá kallinum.

Svo fengum við okkur flúr nr. 4 í ferðinni á síðasta deginum í Puerto Princesa.

Frá Puerto Princesa lá leiðin til eyjunnar Boracay sem var jafnframt okkar síðasta stopp á Filippseyjum. Boracay er (eða var mögulega) mesti túristastaður Filippseyja en rétt eftir að við fórum þaðan var eyjunni lokað í nokkra mánuði. Eyjunni var lokað vegna þess að forsetinn eða ríkisstjórnin vildi hreinsa eyjuna, endurnýja allar lagnir og hreinsa sjóinn. Það var a.m.k. okkar skilningur en kannski er ég að segja einhverja tóma vitleysu. Þið takið þessu með fyrirvara. Eyjunni var allavega lokað í lok apríl 2018 og opnuð aftur í nóvember 2018. Við vorum því með þeim síðustu til þess að upplifa eyjuna fyrir lokun.

Gunni gjörsamlega elskaði Boracay. Við dvöldum þar í 12 daga en hann hefði eflaust getað sest þar að um ókomna tíð.

Fyrsta daginn okkar á Boracay leigðum við lítinn bát yfir heilan dag. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það hafi verið besti dagur reisunnar. Við keyptum bjór og tókum með okkur á bátinn (sem betur fer því ég var skíthrædd þarna fyrst en róaðist öll eftir einn eða tvo) sigldum um eyjuna og nærumhverfi, hoppuðum í sjóinn og kíktum á aðra eyju. Fullkominn dagur í alla staði og jafnframt sá eftirminnilegasti.

Á Boracay vörðum við miklum tíma við ströndina, í sjónum og við sundlaugarbakkann. Við leigðum Jet Ski einn daginn, sjóbretti annan daginn og svo var dágóðum tíma eytt við hvern barinn á eftir öðrum. Við vorum jú í fríi og svona.

Á Boracay upplifði ég líka fallegustu sólsetur sem ég hef á ævinni séð. Gunni upplifði þau svo sem líka en ég held hann muni lítið eftir þeim og sé nokkuð sama. Við deilum ekki sameiginlegum áhuga á fallegum sólsetrum.

Eftir Boracay vorum við komin með nóg af strandarlífinu og næsta stopp var stórborgin Kuala Lumpur í Malasíu. Það var jafnramt síðasti áfangastaður ferðarinnar (fyrir utan eina nótt í Singapore á leiðinni heim). Ég hlakka til að segja ykkur betur frá því í næstu færslu.

LOVE
Sesselía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s